Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn með „óábyrgar skyndihugmyndir“

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. MYND/GVA

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir að sé forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag rétt sé Sjálfstæðisflokkurinn að ganga gegn málegnasamningi sitjandi meirihluta. Fréttablaðið segist hafa fyrir því heimildir að samkomulag hafi náðst innan meirihluta stjórnar Orkuveitunnar að samþykkja tillögu um að hefja undibúning að sölu REI.

„Þetta er þvert á yfirlýsingar borgarstjóra í Kastljósi í gær og virðist raunar einnig vera í mótsögn við málefnasamning sitjandi meirihluta þar sem einkavæðing orkufyrirtækja er útilokuð," segir Dagur.

„Niðurstaða Sjálfstæðisflokksins virðist enn og aftur vera viðbragðs-pólitík, að þessu sinni vegna harðorðs leiðara Morgunblaðsins í gær þar sem stefnuleysi og hringlandaháttur borgarstjórnarflokksins var kallaður "lágkúrulegur", borgarstjórnarflokkurinn sagður forystu- og dómgreindarlaus og ástandið "hörmulegt, en því miður staðreynd," " bætir Dagur við.

Dagur segir Sjálfstæðisflokkinn þó gera illt verra með „óábyrgum skyndihugmyndum um sölu REI" og að „enn og aftur virðist Sjálfstæðisflokkurinn ætla að falla í þá gryfju að reyna að leysa innbyrðis ágreining og valdabaráttu með skyndihugdettum um sölu þar sem hagsmunir borgarbúa og Orkuveitunnar eru fyrir borð bornir. Borgarstjóra á augljóslega að niðurlægja í leiðinni. Hann er ekki hafður með í ráðum heldur stillt upp við vegg á forsíðum blaðanna."

Stjórnarfundur Orkuveitunnar fer fram í dag klukkan ellefu. Vísi hefur ekki tekist að ná í neinn þeirra fulltrúa sem skipa meirihlutann í fyrirtækinu.´

Sigrún Elsa Smáradóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar segir að tilllagan um sölu REI sé ekki á fyrirfram ákveðinni dagskrá fundarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×