Erlent

Páfi átti fund með fórnarlömbum misnotkunar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Benedikt páfi XVI átti í gær fund með hópi fólks sem misnotað hafði verið kynferðislega í æsku af kaþólskum prestum. Fundurinn átti sér stað í kapellu í Washington en páfi er um þessar mundir í heimsókn í Bandaríkjunum.

„Ég sagði páfa að illkynja mein yxi í söfnuði hans og hann yrði að gera eitthvað í því," sagði Bernie McDaid, einn úr hópnum. Fólkið sagði að páfi hefði rætt við það á innilegum nótum og beðið það afsökunar fyrir hönd kirkjunnar. Að sögn manns sem var á staðnum var fundurinn tilgerðarlaus og hjartnæmur. Hann sagði Benedikt hafa tekið fólkinu einstaklega vel og tár hefðu fallið.

Páfinn sagði kirkjuna þurfa að takast á við kynferðislega misnotkun af heiðarleika og sanngirni. Enn fremur sagði hann að kaþólska samfélagið yrði allt að leggjast á eitt til að lækna sárin. Benedikt fer til New York í dag og ávarpar þar þing Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur mun hann halda messu á Yankee-leikvanginum og hefur fjöldi fólks þegar flykkst til borgarinnar til að verða vitni að því.

CNN greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×