Innlent

Futura á hausnum - Úrval-Útsýn leitar að nýju flugfélagi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn leitar nú að nýjum aðila til að annast farþegaflug eftir að spænska flugfélagið Futura Airways var sett í tveggja daga flugbann af spænskum yfirvöldum þar til fullnægjandi greinargerð um rekstrargrundvöll félagsins liggur fyrir af hálfu stjórnenda þess.

„Þeir voru stoppaðir í tvo daga, mánudag og þriðjudag [í dag og á morgun] en reyndar er búið að afnema það stopp núna. En þegar þetta fer af stað fer maður strax að leita að öðrum lausnum," sagði Helgi Jóhannsson, stjórnarformaður Ferðaskrifstofu Íslands. Hann sagði að búið væri að bjarga öllum ferðum í dag og nánast út vikuna. Tímasetningin væri heppileg þar sem komið væri fram í september og mikið af flugvélum að losna. „Við ætlum bara að leysa vikuna með því að leita til annarra flugfélaga, jafnvel þótt okkur sé sagt að Futura geti flogið. Við viljum bara hafa vaðið fyrir neðan okkur," sagði Helgi enn fremur og sagði að meðal annars hefði Iceland Express hlaupið undir bagga með ferðaskrifstofunni.

„Nú erum við bara að safna saman upplýsingum frá þeim flugfélögum sem eiga vélar og reyna að finna þann valkost sem truflar minnst," sagði Helgi. „Ef þeir [Futura] leysa sín mál er það bara fínt en við viljum bara hafa þetta hundrað prósent öruggt," sagði hann að lokum.

Samkvæmt frétt dönsku fréttasíðunnar standby.dk missa 1.500 manns vinnuna ef Futura Airways leggur upp laupana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×