Erlent

Tuttugu og tvö þúsund látnir í hamförum í Kína

Vonir dvína nú hratt um að fleiri finnist á lífi í rústum húsa eftir jarðskjálftann mikla í Kína í upphafi vikunnar. Kínverjar staðfestu í morgun að rúmlega tuttugu og tvö þúsund manns hið minnsta hefðu farist í hamförunum.

Kínversk stjórnvöld hafa áður sagt að þau óttist að tala látinna geti farið í fimmtíu þúsund manns þegar öll kurl verði komin til grafar. Fjórar komma þrjár milljónir heimila eyðilögðust í jarðskjálftanum.

Aðstæður eru sérstaklega átakanlegar fyrir utan þá átta skóla sem hrundu í jarðskjálftanum. Þar bíður fjöldi grátandi foreldra í þeirri von að börn þeirra séu enn á lífi. Foreldrarnir eru yfirvöldum ævareið og segja skólana hafa verið illa byggð. Ríkisstjórnin hefur fyrirskipað rannsókn á því hvernig staðið var að byggingu þeirra.

Hu Jintao Kínaforseti kom á hamfarasvæðið í morgun. Hann sagði að þó þrír sólahringar væru liðnir yrði að líta svo á að fólk væri enn á lífi í rústunum og björgunarmenn yrðu áfram að störfum.

Björgunarmönnum tókst í gær að bjarga stúlku úr rústum skóla eftir að hún hafði legið þar grafin í áttatíu klukkustundir. Kínversk stjórnvöld hafa gefið leyfi til þess að sveit sérfræðinga frá Japan aðstoði við björgunarstörf en Japanir hafa langa reynslu í að fást við eftirköst öflugra jarðskjálfta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×