Erlent

Unglingar telja eðlilegt að fá greitt með hamborgurum fyrir kynlíf

Ein af hverjum tíu stúlkum í Danmörku telur í lagi að taka við greiðslu eða gjöfum eins og hamborgara fyrir munnmök. Nær 37 prósent danskra stráka telja slík skipti vera í lagi. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem gerð var af þjónustustofnuninni Servicestyrelsen.

Fjallað er um málið á vefsíðunni norden.org. Þar segir að rætt hafi verið um unglinga og kynlíf út frá kynjasjónarmiði á sérfræðinganámstefnu sem haldin var á vegum Svía sem nú gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

„Það sem gerst hefur er að sala á kynlífi er ekki lengur feimnismál. Vændi er orðið eðlilegt fyrir norræna unglinga", segir Kira Appel, sérfræðingur í danska velferðar- og jafnréttisráðuneytinu og vísar þar til skýrslu Norrænu stofnunar um kynja- og kvennarannsóknir (NIKK).

Hún ítrekaði að norrænir unglingar telji klám vera fyrir alla sem eru orðnir kynþroska. Klám sé hluti af hversdagslífi unglinga á Norðurlöndum með aðgengi þeirra að Netinu, myndböndum og því sem ber fyrir augu þeirra á götum úti. Þetta hefur allt áhrif á skoðanir unglinganna á kynlífi, kaupum á kynlífi og neyslu á klámi.

Í dönsku könnuninni kemur fram mikill munur á afstöðu stráka og stúlkna. 53 prósent strákanna og 19 prósent stúlkna telur það vera í lagi að kaupa kynlífsþjónustu. Jafnframt segja 22 prósent stráka að þeir gætu vel hugsað sér að kaupa kynlífsþjónustu, en 97 prósent stúlkna myndi aldrei kaupa slíka þjónustu.

Appel segir einnig að danska könnunin sýni fram á að mikilvægt sé að hækka aldurstakmark þeirra sem mega kaupa kynlífsþjónustu, vegna þess að þeim mun yngri sem kaupendur kynlífsþjónustu séu fyrsta sinni, þeim mun meiri áhætta sé á því að þeir haldi áfram að kaupa hana.

Appel segir kannanir sem gerðar hafa verið á Englandi sýna fram á að margar unglingsstúlkur telji kynlíf og klám vera aðgangsmiða í skemmtanageirann og því telji margar þeirra þetta vera leið á framabrautinni. Hún telur sig hafa rökstuddan grun um að afstaða norrænna unglinga sé að breytast í sömu átt.

Á námstefnunni kom einnig fram að unglingar á Norðurlöndum nota sífellt sjaldnar smokka og því smitast stöðugt fleiri af kynsjúkdómnum klamydíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×