Erlent

Demókratar vilja nýjan neyðarpakka

Demókratar á Bandaríkjaþingi segja þörf á mörg hundruð milljarða dala neyðarpakka til að rétta af efnahag Bandaríkjanna. Einn slíkur verði tilbúinn þegar Barack Obama taki við sem Bandaríkjaforseti í janúar og fái þá stuðning demókrata á þingi.

Fjölmörg bandarísk fyrirtæki berjast nú í bökkum vegna alþjóðlegu efnahagskreppunnar. Ris á borð við bílaframleiðandann General Motors riða til falls.

Demókratar úr báðum deildum Bandaríkjaþings hafa rætt það opinberlega um helgina að þörf sé á milljarða dala neyðarpakka til bjargar fyrirtækjum.

Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, sagði í kosningabaráttunni að leggja yrði fram nærri tvö hundruð milljarða dala.

Einn forvígismanna demókrata í öldungadeild Banaríkjaþings sagði í dag að talan væri nærri fimm eða sjö hundruð milljörðum.

Obama nefndi engar tölur í vefávarpi í gær en sagði að það yrði að skapa tvær og hálfa milljón starfa fyrir árið 2011 til að halda efnahagskerfi landsins gangandi. Ríkið og fylkisstjórnir þurfi að koma að og láta leggja nýja vegi og byggja nýjar brýr um leið og allt kapp verði lagt á að þróa tækni til að beisla endurnýtanlega orku.

Obama sagði að neyðarpakki yrði tilbúinn við valdatöku hans í janúar og talið að demókratar styðji hann.

Obama mun á morgun tilkynna formlega að hann ætli að skipa Timothy Geithner, bankastjóra Seðlabanka New York ríkis, í embætti fjármálaráðherra. Hann muni vinna náið með Lawrence Summer, sem var fjármálaráðherra í forsetatíð Bills Clintons. Orðrómur um skipan Geithners olli uppsveiflu á mörkuðum vestanhafs á föstudaginn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×