Erlent

Auðgað úran flutt í örugga geymslu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Úran.
Úran.

Bandaríkjamenn og Rússar hafa farið 15 ferðir með auðgað úran úr kjarnorkuverum víðs vegar um Evrópu í örugga geymslu í Síberíu á síðustu þremur árum.

Nægilegt magn af auðguðu úrani til að búa til sex kjarnorkusprengjur var flutt með mikilli leynd frá kjarnorkuveri í Búdapest í Ungverjalandi til geymslustöðvar í Mayak í Síberíu til að koma í veg fyrir að því yrði stolið. Sendingin var flutt með skipi um Miðjarðarhafið og alla leið norður til Murmansk, einu hafnar Rússlands sem flytja má kjarnavopn um.

Þaðan fóru 13 geislavirkniheld ker, hvert um átta tonn, með lest til Síberíu þar sem úraninu verður komið fyrir í geymslustöð undir hámarkseftirliti. Þessu sögðu bandarískir embættismenn frá í gær en flutningarnir eru hluti af samvinnuáætlun Bandaríkjamanna og Rússa til að koma í veg fyrir að geislavirkum efnum sé stolið úr kjarnorkuverum víða um Evrópu þar sem öryggisgæsla er í lágmarki.

Þessi ferð sérstaklega erfið

Kenneth Baker, hjá Kjarnorkuöryggisstofnun Bandaríkjanna, sagði þessa ferð hafa verið sérstaklega erfiða. Hún hefði tekið um þrjár vikur og meðan varningurinn var um borð í skipi hafi þess ávallt verið að gætt að það væri sem mest á alþjóðlegu hafsvæði. Kerin 13 hefðu verið flutt með lestum frá Budapest, eitt ker í hverri lest, til Koper í Slóveníu þaðan sem siglt var.

Frá höfninni í Murmansk fór úranið svo með lest á leiðarenda í Síberíu. Baker sagði ekki hafa verið hættandi á að flytja úranið landleiðina gegnum Úkraínu og þess vegna hafi sú ákvörðun verið tekin að flytja það bókstaflega í kringum Evrópu. Um 160 kíló af auðguðu úrani voru flutt í þessari ferð - í búnaði sem vó vel yfir 100 tonn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×