Innlent

Bankastjóri orðaður við Landsvirkjunarstól

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, vill ekki tjá sig um sögusagnir þess efnis að hann hyggist sækja um starf forstjóra Landsvirkjunar.

Tvö stærstu orkufyrirtæki landsins, Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun, fá nýjan forstjóra á næstu vikum. Umsóknarfrestur er runnin út um starfið hjá Orkuveitunni en farið er með umsóknir sem trúnaðarmál, eins og hjá Landsvirkjun. Starfandi forstjóri Orkuveitunnar, Hjörleifur Kvaran, hafði þó lýst því yfir að hann hygðist sækja um. Um aðra umsækjendur er ekki vitað en stefnt er að því að ganga frá ráðningunni á stjórnarfundi Orkuveitunnar þann 19. september. Hjá Landsvirkjun rennur umsóknarfrestur út þann 12. september. Víst má telja að ákvörðun verði borin undir forystumenn ríkisstjórnarinnar en fjármálaráðherra fer með eigendavaldið yfir Landsvirkjun fyrir hönd ríkisins.

Margir eru nefndir sem líklegir umsækjendur. Úr stjórnendahópi Landsvirkjunar þykja forstjórar tveggja dótturfyrirtækja líklegir, þeir Bjarni Bjarnason, hjá Landsvirkjun Power og Stefán Pétursson, hjá Hydrocraft Invest. Stjórnarformaður Landsvirkjunar, Ingimundur Sigurpálsson, er orðaður við starfið, en hann sagði Stöð 2 í dag að ekki hafi hvarflað að sér að sækja um. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa, er nefndur en hann segist ekki ætla að sækja um, kveðst afar sæll í því sem hann er að gera.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er nefndur. „Nei ekki núna," svarar hann, kannski eftir tíu ár. Raddir heyrast um að kominn sé tími til að kona stýri Landsvirkjun. Ásdís Halla Bragadóttir er nefnd en hún kveðst ekki hafa íhugað að sækja um. Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, er orðaður við starfið en hann fór áður með orkumál í iðnaðarráðuneytinu. Þegar Stöð 2 spurði Halldór í dag hvort hann myndi sækja um forstjórastarfið í Landsvirkjun var svarið: „Ég tjái mig ekkert um slíkar sögusagnir."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×