Innlent

Veiðarnar þola ekki dagsljósið

Sigursteinn Másson fer fyrir hópi kvikmyndaliðs á vegum Alþjóða dýraverndunarsjóðsins - IFAW, sem ætlaði í dag að ná myndum af hrefnuveiðimönnum að störfum. Hrefnuveiðimenn eru hættir veiðum í dag og segja ekki koma til greina að veiða með myndatökulið í eftirdragi. Sigursteinn segir augljóst að veiðimennirnir álíti að veiðarnar þoli ekki dagsljósið.

„Við höfum fylgt hrefnuveiðibátnum Nirði eftir með það í huga að mynda veiðarnar," segir Sigursteinn í samtali við Vísi. „Ég hefði nú haldið að hvalveiðar væru ekki neitt feimnismál en þeir virðast líta á það sem svo," segir hann. Hrefnuveiðimennirnir segja að kvikmyndaliðið hafi verið of nærri hrefnubátnum til þess að unnt sé að skjóta dýr. „Við höfum verið í sjónlínu við bátinn en aldrei í minna en hálfrar sjómílu fjarlægð, yfirleitt er það heil sjómíla," segir Sigursteinn.

Sigursteinn segir að hrefnubáturinn hafi pakkað saman og stími nú rólega í land. „Það kemur í raun á óvart þar sem mikið er af hrefnu á svæðinu og veðrið með eindæmum gott. Við höfum reynt að ná samkomulagi við þá um að fá að mynda veiðarnar en þeir aftaka það með öllu. Það er greinilegt að það sem er í gangi hérna má ekki líta dagsins ljós."

Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn hefur að sögn Sigursteins að markmiði að byggja undir hvalaskoðun í stað hvalveiða. Sigursteinn hefur unnið fyrir sjóðinn í nokkur ár og var fenginn í ljósi fyrri reynslu sinnar af kvikmyndagerð til þess að hafa umsjón með myndatökunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×