Innlent

Neikvætt að Sádar komi kvenmannslausir

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis.
Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis.

Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, þykir ekki gott að engin kona skuli vera í 17 manna sendinefnd frá ráðgjafarþingi Sádi-Arabíu sem kemur til landsins um helgina. ,,Það er alveg ljóst að Sádar eiga býsna langt í land í lýðræðis- og jafnréttismálum," segir Sólveig.

Í janúar 2007 fór Sólveig sem þá var forseti Alþingis í opinbera heimsókn til Sádi Arabíu. Með í för voru þingkonurnar Arnbjörg Sveinsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.

,,Það var af ásettu ráði að íslenska sendinefndin var skipuð konum en mér fannst rétt að héðan færi hópur kvenna til að leggja áherslu á stöðu kvenna," segir Sólveig og bætir við að hún trúi að það hafi áhrif að ,,senda slíka sendinefnd til að koma því á framfari hvað Ísland hefur gert varðandi lýðræði, mannréttindi og ekki síst í jafnréttismálum."

Þingkonurnar báru slæður í heimsókninni sem vakti nokkra umræðu. ,,Við tókum sjálfar þá ákvörðun að bera slæður á helstu fundum. Þetta var okkar ákvörðun og það var enginn sem fór fram á það," segir Sólveig og bætir við að það sé hluti af ,,siðvenjum að sýna gestgjöfum ákveðna virðingu rétt eins og þeir sýna okkur fulla virðingu."

Sólveig segir að ferðin hafi heppnast vel, verið fræðandi og að afar vel hafi verið tekið á móti íslensku sendinefndinni. ,,Í ljósi átaka á milli menningarheima og trúarbragða er mikilvægt að fólk ræði sem mest saman."

Samkvæmt upplýsingum Alþingis inniheldur sendinefndin forseta þingsins, fjóra þingmenn og aðstoðarmenn þeirra. Nefndin mun dvelja hér á landi frá sunnudegi til miðvikudags. Hún mun funda með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, Sturlu Böðvarssyni, forseta Alþingis, Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra, og iðnaðarnefnd Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×