Innlent

Frásögn af flótta Annþórs vakti kátínu í réttarsal

Andri Ólafsson skrifar
Annþór Kristján Karlsson
Annþór Kristján Karlsson

Annþór Kristján Karlsson bar vitni í hraðsendingarmálinu í dag en aðalmeðferð fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Annþór neitar sök en hann er ákærður fyrir að fjármagna og skipuleggja smygl á miklu magni fíkniefna til landsins.

Fjórir eru ákærðir í málinu en tveir þeirra, bræðurnir Jóhannes og Ari Gunnarssynir, segja að Annþór hafi verið höfuðpaurinn í smyglinu. Þessu neitaði Annþór staðfastlega í dag. Við skýrslutökurnar í morgun spilaði Kolbrún Sævarsdottir saksóknari nokkrar upptökur af hleruðum símtölum sem Annþór átti við félaga sína um málið.

Í einu þeirra kemur flótti Annþórs úr gæsluvarðhaldi til tals en eins kunnugt er strauk hann af lögreglustöðinni á Hverfisgötu þegar hraðsendingarmálið var til rannsóknar. Hann fannst skömmu síðar í skáp á heimili félaga síns.

Í símtalinu sem spilað var í dag lýsti Annþór því hvernig hann losaði öryggisglet, vírnet og fleira til þess að komast út um gluggann á lögreglustöðinni og strjúka. Á upptökum heyrist Annþór og félagi hans hlæja mikið af þessu uppátæki. "Þetta er húmor," sagði Annþór meðal annars og skellti up úr. Þeir sem hlýddu á þessar upptökur, þrír dómarar, sækjandi og verjendur, brostu einnig í kampinn enda frásögn Annþórs af uppátækinu afar spaugileg.

Þegar Annþór hafði lokið máli sínu var Tómas Kristjánsson kallaður til vitnis. Tómas var starfsmaður hraðsendingarfyrirtækisins UPS oger ákærður fyrir að hafa skipulagt smyglið en samkvæmt ákæru átti hann að taka við fíkniefnunum þegar þau komu til lands með hraðsendingu.

Tómas neitar sök í málinu en besti vinur hans frá barnæsku, Jóhannes Gunnarsson, bar skömmu áður vitni um það að Tómas hefði verið lykilmaður í undirbúningi og framkvæmd smyglsins ásamt Annþóri Kristjáni Karlssyni.

Tómas sagði að framburður Jóhannesar væri svik og það væri líkt og að hann hefði verið stunginn í bakið. Hann gat hins vegar engar skýringar gefið fyrir því afhverju hans besti vinur væri að bera hann svo þungum sökum.

Vitnaleiðslum lýkur í dag og þá tekur við munnlegur málflutningur verjenda. Að honum loknum munu þrír dómarar málsins taka málið til dóms. Niðurstöðu þeirra er að vænta innan þriggja vikna.


Tengdar fréttir

Bræðurnir segja Annþór hafa skipulagt smyglið

Ari Gunnarsson annar bræðranna í Hraðsendingarmálinu svokalla, brast í grát þegar hann bar vitni í málinu í dag. Honum og þremur öðrum er gefið að sök stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 4,6 kílóum á amfetamíni og nærri 600 gömmum af kókaíni frá Þýskalandi. Ari og bróðir hans, Jóhannes, bera báðir að Annþór Kristján Karlsson hafi verið skipuleggjandi smyglsins og sá sem fjármagnaði fíkniefnakaupin. Þeir bræður segjast aðeins hafa verið milligöngumenn á milli Annþórs og Tómasar Kristjánssonar sem starfaði hjá hraðsendingarfyrirtækinu UPS en efnin voru send með hraðsendingu á vegum þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×