Innlent

Nýbakaður faðir: Fjármálaráðherra sjái sóma sinn í að semja

Kjartan Due Nielsen nýbakaður faðir.
Kjartan Due Nielsen nýbakaður faðir.

Fjármálaráðherra ætti að sjá sóma sinn í því að semja við ljósmæður, segir nýbakaður faðir á sængurkvennadeild Landspítalans. Þar hafa verið miklar annir allt frá því að annað verkfall ljósmæðra hófst á miðnætti.

Fram kom í hádegisfréttum Stöðvar 2 að sjö börn hefðu fæðst í nótt og að fæðing hefði verið hafin hjá ellefu konum. Vegna þessa annríkis þurfti að fá undanþágu frá verkfallinu til þess að kalla út fleiri ljósmæður. Hefur sængurkvennadeildin verði yfirfull og voru þrjár konur frammi á gangi á deildinni í morgun.

Kjartan Due Nielsen var ásamt barnsmóður sinni á fæðingardeildinni í nótt og í morgun þar sem þau eignuðust dóttur. Aðspurður segir hann nýbakaða og verðandi foreldra finna fyrir óþægindum. „Í því herbergi sem við erum er gert ráð fyrir tveimur konum en nú eru þar þrjár konur og þannig er það á flestum stofum á sængurkvennadeildinni," segir Kjartan. Þetta þýði meira ónæði og umstang á staðnum og þá séu konur sendar fyrr heim en ella vegna ástandsins. Ekkert sé hins vegar upp á ljósmæður að klaga því þær geri sitt besta.

Spurður um framgöngu stjórnvalda, sem hingað til hafa ekki viljað ganga að kröfum ljósmæðra, segir Kjartan að viðbrögð þeirra séu fráleit. „Mér finnst að fjármálaráðherra eigi að sjá sóma sinn í að semja við ljósmæður. Þær óska eftir hærri launum sem samsvara menntun þeirra. Þetta eru réttmætar kröfur og ég styð þær," segir Kjartan og bætir við: „Ég held að heilbrigðisráðherra ætti að koma hingað á gangana og sjá hvernig staðan er."











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×