Innlent

Milljónatjón í bruna í húsnæði ÍAV

MYND/Víkurfréttir/Ellert

Milljónatjón varð í brunanum á verkstæði verktakafyrirstækisins ÍAV við Hofsgötu í Njarðarvík í dag eftir því sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs fyrirtækisins segir.

Stór vörubíll, svokölluð búkolla, brann til kaldra kola í eldinum sem uppgötvaðist um hádegisbil. Slökkvilið var að störfum fram undir klukkan fjögur.

Að sögn Eyjólfs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs ÍAV, liggur mesta tjónið í búkollunni sem metin er á milljónir króna en einnig mun eitthvað af handverkfærum hafa brunnið. Um var að ræða verkstæði fyrir þungavinnuvélar og gekk slökkviliði vel að ráða niðurlögum eldsins þar. Hins vegar læsti eldurinn sig í þakið og gekk erfiðlega að komast að honum þar sem þakið er stáklætt að utan og innan.

Ekki er vitað hvernig eldurinn kom upp en Eyjóflur segir að starfsmenn í húsinu hafi verið farnir í mat þegar hann uppgötvaðist. „Þannig að það var aldrei nein hætta á manntjóni sem betur fer," segir Eyjólfur.

Aðspurður hvort félagið sé tryggt fyrir tjóninu segist Eyjólfur ekki vita með þetta tiltekna tilvik en almennt sé félagið mjög vel tryggt. Hann segir stjórnendur félagsins vinna að því að skipuleggja næstu skref og bendir á að í húsinu séu fjögur eða fimm brunahólf og aðeins eitt þeirra hafi skemmst. Því sé kannað hvort hægt verði að færa starfsemina sem var á verkstæðinu á annan stað í húsið. Hann reiknar með að þrif á húsinu hefjist í dag og vonast til að starfsmenn geti mætt í fyrramálið.










Tengdar fréttir

Búkolla brann í Njarðvík

Stór vinnuvél, sem oft er nefnd Búkolla, eyðilagðist í bruna á bifreiðaverkstæði ÍAV við Hofsgötu í Njarðvík í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×