Lífið

Leit að líkum gengur vel

„Líkleitin gengur furðuvel. Ég átti ekki von á viðbrögðum svona snemma," segir Snorri Ásmundsson myndlistamaður, sem auglýsti á dögunum eftir dauðvona fólki til að taka þátt í videoverki að sér látnu. Hann segir nokkra aðila hafa sýnt því áhuga að taka þátt, en málið sé á viðkvæmu stigi. „Það verður þó pottþétt af þessu, ég vona bara að það verði íslendingur."

Snorri vill sem minnst gefa upp um hvernig myndbandið verður, en segir þó að hluti þess verði að fylgjast með undirbúningsvinnunni, lokakaflanum í lífi þeirra sem taka þátt. „Fyrsti hlutinn var auglýsingin og viðbrögðin við henni. Hinn parturinn er vinna með þeim látna og svo dauðinn," segir Snorri og bætir við að vídeóverkið sjálft verði skemmtilegt. „Þetta er ekki dramatískt vídeo þó undanfarinn gæti orðið dramatískur," segir Snorri, sem telur að verkið geti orðið það fallegasta sem hann hefur gert.

Þær gagnrýnisraddir hafa heyrst að verkið sé siðlaust, en það þvertekur Snorri fyrir. „Hrædda fólkið dæmir fyrst. Ef fólk kynnti sér málin betur þá sæi það að ég er ekki að fara út fyrir nein siðferðismörk," segir Snorri, og ítrekar að allt sé þetta unnið í fullu samráði við þann dauðvona. „Ég geri ekkert án samþykkis hins látna."

Snorri segir að það sé bæði ögrandi og spennandi fyrir hann að vinna með látið fólk. Hann hræðist tilhugsunina ekki. „Lík er bara hulstur yfir huga og sál. Við gefum líffæri eftir dauða okkar, og okkur finnst sjálfsagt að handleika fisk og önnur dauð dýr," segir Snorri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.