Innlent

Ekki bjartsýnn á lausn deilna fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir árslok

Moussa og Ingibjörg á blaðamannafundi eftir fund sinn í morgun.
Moussa og Ingibjörg á blaðamannafundi eftir fund sinn í morgun. MYND/Frikki Þór

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Amre Moussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, ræddu málefni Palestínu og fjármálakreppuna sem skekur nú heimsbyggðina á fundi sínum í Ráðherrabústaðnum í morgun. Moussa er hér í opinberri heimsókn.

Moussa sagðist á blaðamannafundi eftir fundinn ekki bjartsýnn á lausn deilu Palestínumanna og Ísraela fyrir árslok eins og stefnt hefði verið að. Það strandaði á vilja manna til þess að tryggja Palestínumönnum sjálfstætt ríki. Viðræður í málinu þyrftu að vera hreinskiptnar og byggjast á aðgerðum en ekki vonum.

Þá þakkaði hann íslenskum stjórnvöldum fyrir að taka á móti palestínskum flóttamönnum frá Írak, en eins og kunnugt er komu hingað tæplega 30 flóttamenn og settust að á Akranesi í síðustu viku.

Moussa fjallar um deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs á opnum fundi í Hátíðarsal Háskóla Íslands og hefst sá fundur klukkan kortér yfir tólf. Fundurinn er öllum opinn en hann fer fram á ensku.

Auk þess að funda með utanríkisráðherra hittir Amre Moussa Geir H. Haarde forsætisráðherra og utanríkismálanefnd Alþingis á meðan heimsókn hans stendur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×