Innlent

Guðjón óttast ekki Sigurjón

Guðjón Arnar Kristjánsson er formaður Frjálslynda flokksins.
Guðjón Arnar Kristjánsson er formaður Frjálslynda flokksins.

Guðjón Arnar Kristjánsson hræðist ekki slag um formannsembætti Frjálslynda flokksins á næsta landsþingi flokksins. ,,Ég hef aldrei óttast kosningar og ég hef aldrei farið á tauginni yfir einni einustu kosningu," segir Guðjón og kveðst ekki hafa hug á að byrja á því núna.

Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður flokksins, telur rétt að Guðjón Arnar víki til hliðar sem formaður. Fram kom á Vísi í gær að stjórn Frjálslynda flokksins í Eyjafirði hefði skorað á Sigurjón að gefa kost á sér til formennsku í flokknum. Sigurjón segist íhuga að gefa kost á sér.

Guðjón Arnar skynjar ekki undiröldu í flokknum og segir að Sigurjóni sé frjálst að hafa þessa skoðun.

Guðjón Arnar segist ekki hafa hugleitt að draga sig í hlé en hann hefur gegnt formennsku í flokknum undanfarin fimm ár. ,,Ég hef alltaf líst því yfir að ég er ekki á leiðinni út. Ég held að allir viti það."

Aðspurður hvernig samskiptum hans og Sigurjóns hafi verið háttað undanfarið segir Guðjón: ,,Þau hafa bara verið ágæt. Við spjöllum reglulega saman í síma. Ekki daglega þó. Það hefur alltaf verið ágætt á milli okkar Sigurjóns," segir Guðjón og bætir við að honum semji yfirleitt ágætlega við fólk.




Tengdar fréttir

Sigurjón telur rétt að Guðjón íhugi að stíga til hliðar

Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, telur rétt að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, íhugi það hvort hann víki til hliðar á komandi landsþingi flokksins. Þetta sagði Sigurjón í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Sigurjón íhugar formannsframboð hjá frjálslyndum

Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, segist ætla að íhuga málin vandlega áður en hann ákveður um framboð til formanns Frjálslynda flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×