Innlent

Sigurjón telur rétt að Guðjón íhugi að stíga til hliðar

Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, telur rétt að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, íhugi það hvort hann víki til hliðar á komandi landsþingi flokksins. Þetta sagði Sigurjón í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Fram kom á Vísi í gærkvöld að stjórn Frjálslynda flokksins í Eyjafirði hefði skorað á Sigurjón að gefa kost á sér til formennsku í flokknum á landsþingi flokksins sem haldið verður í janúar á næsta ári. „Maður verður náttúrulega að skoða þetta," sagði Sigurjón þegar Vísir ræddi við hann í gær.

Sigurjón ræddi þessar hugmyndir svo aftur í útvarpinu í morgun og ítrekaði að hann væri að skoða þetta. „Ef af yrði þá myndi ég helst vilja að Guðjón Arnar myndi styðja mig til forystu," sagði Sigurjón. Aðspurður hvort hann teldi að tími væri kominn til að Guðjón viki til hliðar sagði Sigurjón að menn yrðu að skoða það í aðdraganda þingsins. Þegar gengið var á Sigurjón sagði hann: „Mér finnst vera rétt að hugleiða það. Annars hefði maður bara slegið þetta strax út af borðinu."

Fram kom í Fréttablaðinu í dag að tveir framámenn flokksins, þingmaðurinn Kristinn H. Gunnarsson og varaformaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson, deildu vegna komu flóttamanna á Akranes. Um þessar deilur og aðrar segir Sigurjón að það sé mjög góður andi innan þingflokksins „ef frá eru skilin vandræði sem fylgja Kristni eilíft." Kristinn verði að taka sig taki og aðlaga sig að nýjum húsakynnum.

Viðtalið er hægt að nálgast hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×