Innlent

Ámælisvert siðareglubrot Víkurfrétta

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Páll Ketilsson.
Páll Ketilsson.

Vefmiðillinn Víkurfréttir telst að mati siðanefndar Blaðamannafélags Íslands hafa gerst sekur um ámælisvert brot gegn 3. grein siðareglna félagsins. Í þeirri grein er blaðamönnum boðið að forðast allt sem valdið getur saklausu fólki eða fólki sem á um sárt að binda óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Málsatvik eru þau að Víkurfréttir birtu í febrúar frétt þar sem sorp frá nafngreindum aðila var sagt hafa fundist á Miðnesheiði. Var fréttin skrifuð sem beint ávarp til viðkomandi sem að lokum var beðinn um að koma sorpinu til eyðingar. Í sorpinu var meðal annars póstur stílaður á aðilann.

Nefndur aðili kom á skrifstofu Víkurfrétta og kvartaði yfir fréttaflutningnum. Áttu nokkur bréfaskipti sér stað milli ritstjórnar Víkurfrétta og kvartandans í kjölfarið. Fóru leikar svo að kæra var lögð fram til Blaðamannafélagsins. Segir í kærunni „að þær ærumeiðingar og aðdróttanir sem Víkurfréttir kusu að setja fram gegn kæranda, án nokkurs undanfara sem skýrt gæti tilefnislausa árás blaðsins, hafa bakað henni og fjölskyldu hennar mikinn skaða."

Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, ritar meðal annars bréf til kæranda og segist þar „harma það tjón sem þú telur þig hafa orðið fyrir vegna birtingu þeirra. Jafnframt bið ég þig afsökunar á nafnbirtingu, sem var þó kippt í liðinn afar fljótt eftir birtingu fréttarinnar."

Telur siðanefnd að birting á nafni kæranda hafi verið óþörf og ógætileg. Þá beri það vott um óvönduð vinnubrögð að gera enga tilraun til að hafa samband við kæranda og falast eftir skýringum þaðan á því hvers vegna bréf stílað á hann hafi fundist í sorpinu. Telur siðanefndin Víkurfréttum til málsbóta að miðillinn fjarlægði fréttirnar af vefnum í kjölfar athugasemda auk þess sem ritstjóri hafi lagt fram afsökunarbeiðni sína. Engu að síður telur nefndin brotið ámælisvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×