Erlent

Fulltrúar Dalai Lama funda með Kínverjum á morgun

Kínverjar sökuðu Dalai Lama um að standa á bak við mótmælin í Tíbet í mars en því hafnaði leiðtoginn andlegi.
Kínverjar sökuðu Dalai Lama um að standa á bak við mótmælin í Tíbet í mars en því hafnaði leiðtoginn andlegi.

Fulltrúar á vegum Dalai Lama, andlegs leiðtoga Tíbeta, funda á morgun með kínverskum leiðtogum um stöðu mála í Tíbet eftir óeirðir í héraðinu í mars. Frá þessu greindi útlagastjórn Tíbets í dag.

Þar kom einnig fram að fulltrúar Dalai Lama myndu koma á framfæri áhyggjum leiðtogans af framferði Kínverja í Tíbet og leggja fram tillögur að því hvernig koma megi á friði í héraðinu. Kínverjar höfðu sakað Dalai Lama um að standa á bak við óeirðirnar í Tíbet en því hafnaði hann algjörlega og fór fram á viðræður við stjórnvöld í Peking. Á það var fallist í síðustu viku.

Tíbetdeilan hefur sett mikinn svip á stjórnmál á alþjóðavettvangi og hafa þjóðarleiðtogar verið hvattir til þess að sniðganga Ólympíuleikana í Peking í ágúst vegna framferðis Kínverja í Tíbet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×