Innlent

Rannsókn á flótta Annþórs lokið

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn sinni á því hvað fór úrskeiðis þegar Annþór Kristján Karlsson slapp úr fangageymslum lögreglunnar á Hverfisgötu. Stefán Eiríksson lögreglustjóri hefur sent Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra greinargerð um málið.

Í samtali við Vísi segir Stefán ljóst að menn hafi ekki farið að verklagsreglum þegar Annþór var fluttur frá Litla Hrauni á Hverfisgötuna en hann átti að koma fyrir dómara daginn eftir þar sem ákveða átti um áframhald á gæsluvarðhaldi sem hann var í. Stefán segir að nú verði farið yfir málið með þeim lögreglumönnum sem ekki fóru eftir settum reglum. Í greinargerðinni er farið yfir málið og tilgreint til hvaða ráða verður gripið svo atvik sem þetta geti ekki endurtekið sig.

Annþór átti að vera í gæsluvarðhaldi en svo virðist sem hann hafi fyrir mistök verið vistaður í opinni gæslu. Hurðin á klefa hans var opin yfir nóttu og honum tókst að ná sér í reipi sem hann notaði til að síga út um glugga sem hann braut upp. Annþór fannst síðar um daginn inni í fataskáp í Mosfellsbæ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×