Innlent

Hafði engan tíma til að forða sér

Bílstjóri á olíuflutningabíl hafði engan tíma til að forða sér þegar snjóflóð féll á bíl hans í Óshlíðinni á Vestfjörðum í dag. Hann slapp ómeiddur en segir það hafa verið nokkuð skuggalegt að sjá flóðið koma niður. Varað er við snjóflóðahættu bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.

Fyrstu snjóflóðin féllu á veginn um Óshlíð um hádegisbil en á sama tíma var Ari Jóhannsson olíuflutningabílstjóri að aka um hlíðina. Tvö snjóflóð féllu á bíl hans en eftir að fyrra flóðið féll reyndi hann að bakka en um leið féll annað flóð á bílinn. Ari slapp ómeiddur og bíllinn er lítið skemmdur.

Um eitt leytið hélt línuveiðibáturinn Sædís frá Bolungarvík til Ísafjarðar til að sækja þar þrjátíu og fjóra íbúa Bolungarvíkur sem komust ekki til síns heima vegna snjóflóðahættu í Óshlíðinni.

Eftir að hafa ferjað íbúana til Bolungarvíkur sigldi Sædís með björgunarbátnum Gísla Hjalta að Óshlíðinni til að sækja þrjá menn sem þar höfðu orðið innlyksa milli tveggja snjóflóða í Óshlíðinni.

Þá var vegunum um Súðavíkurhlíð og Eyrarhlíð milli Ísafjarðar og Hnífsdals einnig lokað í dag vegna snjóflóða. Enginn var á ferðinni þegar flóðin féllu þar. Vegurinn um Óshlíð verður ekki opnaður aftur í kvöld en varað er við snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum í kvöld og eru lögregla og björgunarsveitarmenn í viðbragðsstöðu vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×