Innlent

Vegir til Suðureyrar og Ísafjarðar opnaðir tímabundið

Umferð verður hleypt á veginn til Suðureyrar milli klukkan hálf-sex og sex en síðan verður vegurinn hafður lokaður áfram vegna snjóflóðahættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þá stendur til að hleypa umferð frá Súðavík til Ísafjarðar um hálf sex leytið en síðan verður vegurinn hafður lokaður áfram vegna snjóflóðahættu.

Veður fer nú versnandi víða um land og auk þess eru vegir sumstaðar ófærir m.a. vegna snjóflóða. Fólk er eindregið beðið að leggja ekki í ferðalög án þess að kynna sér færð og veður. Búið er að opna Hellisheiði. Sandstormur er á Eyrarbakkavegi en flughálka er á kafla undir Eyjafjöllum og einnig í Þykkvabæ. Hálka og hálkublettir eru annars víða á Suðurlandi en sumstaðar þæfingsfærð á sveitavegum. Óveður er við Hafnarfjall og alls ekki ferðaveður. Eins er óveður á Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi. Raunar er orðið mjög hvasst víðar við Faxaflóa svo sem á Reykjanesbraut, Kjalarnesi og Sandskeiði.

Á Vestfjörðum er óveður á Gemlufallsheiði en vegna snjóflóða og snjóflóðahættu er vegur lokaður í Súgandafirði, á Eyrarhlíð, Óshlíð og Súðavíkurhlíð. Snjóþekja og skafrenningur er á Kleifaheiði og á Hálfdán og eins á Steingrímsfjarðarheiði en óveður á Ennishálsi á Ströndum. Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á öllum leiðum ásamt skafrenning á stöku stað. Óveður og hálka er á Öxnadalsheiði. Vegurinn um Þverárfjall er nú orðinn opinn öllum bílum en þar er hálka. Það er óveður á Mývatnsöræfum og á Hólasandi en annars er víðast hvar hálka eða hálkublettir á Norðaustur- og Austurlandi. Öxi er ófær.

Á Suðausturlandi er hálka. Við minnum vegfarendur á að vegna framkvæmda við tvöföldun Reykjanesbrautar er nauðsynlegt að sýna þar aðgát. Sérstaklega biðjum við fólk að fara varlega við framhjáhlaup við Voga, Grindavíkurveg og Njarðvík. Vegfarendur eru beðnir að virða hraðatakmarkanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×