Innlent

Segir REI málið hafa veikt stöðu sína

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri vissi ekki af beinni aðkomu FL-group við gerð þjónustusamnings milli Orkuveitunnar og REI. Hann segir REI málið hafa veikt stöðu sína í borgarstjórn en telur sér stætt á að halda áfram þar sem hann hafi ekki brotið af sér.

Lokaskýrsla stýrihóps borgarráðs um málefni REI og Orkuveitu Reykjavíkur var tekin fyrir á fundi borgarráðs í dag. Tveir hæstaréttarlögmenn gáfu stýrihópnum lögfræðilegt álit, Andri Árnason og Lára V. Júlíusdóttir.

Andri Árnason telur að eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur þar sem samruni REI og Geysis GReen Energy var ákveðinn 3. október síðastliðinn hafi verið lögmætur. En segir að almennar forsendur gildi um ákvarðanir sem teljist óvenjulegar og mikilsháttar falli utan við umboð borgarstjóra.

Lára V. Júlíusdóttir telur hins vegar að eigendafundurinn hafi verið ólögmætur þar sem ekki hafi verið boðið til hans samkvæmt lögum. Þá telur hún að ekki sé hægt að ógilda þær ákvarðanir sem þáverandi borgarstjóri tók á umræddum fundi og hann hafi ekki farið út fyrir umboð sitt.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri sagði eftir fund borgarráðs í dag að hann hefði hvorki brotið lög né farið út fyrir sitt umboð og sagði borgarlögmann kvitta upp á það. Þess má geta að Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður tók ekki afstöðu til þess hvort Vilhjálmur hefði farið út fyrir umboð sitt í svari sínu til umboðsmanns Alþingis.

Þá var bein aðkoma FL -group að gerð þjónustusamnings við Orkuveituna harðlega gagnrýnd í skýrslunni. Menn hjá FL-group telja ekkert athugavert við sína aðkomu þar sem félagið væri stærsti hluthafinn í Geysi green.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×