Erlent

Hollenskir sveppagreifar í sárum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Hollendingar bönnuðu sölu á ofskynjunarsveppum frá og með gærdeginum en framkvæmd þess banns mun þó tefjast um stund.

Í gær tóku gildi lög sem leggja allt að fjögurra ára fangelsi við að selja ferska ofskynjunarsveppi í Hollandi. Sveppirnir innihalda efnið psilocybin sem hefur svipaða verkun og LSD en er þó 200 sinnum veikara. Þess er þó neytt í mun stærri skömmtum með sveppunum svo áhrifin verða gjarnan lík LSD-áhrifum.

Áður hafði verið bannað að selja sveppina þurrkaða og liggur allt að átta ára fangelsisrefsing við því. Hægt hefur verið að kaupa sveppina í verslununum Elements of Nature í Amsterdam og það verður reyndar hægt eitthvað áfram þar sem yfirvöld hafa ekki komið sér saman um hvernig hagkvæmast sé að fylgja banninu eftir.

Sveppagreifum borgarinnar verður því heimilt innan gæsalappa að klára að minnsta kosti að selja þær birgðir sem þeir eiga á lager áður en algjört bann gengur í gildi. Áður höfðu þeir kært bannið til Hæstaréttar Hollands sem staðfesti það.

Job Cohen, borgarstjóri Amsterdam, sagði að samkomulag hefði náðst um að hefja ekki refsingar við brotum á sveppasölubanninu alveg í bráð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×