Innlent

Hafði unnið hjá UPS í þrjú ár

Andri Ólafsson skrifar

"Ég lít þetta mál afar alvarlegum augum og mun fylgjast grannt með rannsókn lögreglu eftir því sem henni miðar áfram. En á meðan henni er ekki lokið get ég ekki tjáð mig frekar," segir Sigþór Skúlason, framkvæmdastjóri UPS á Íslandi, en starfsmaður fyrirtækisins er einn þeirra þriggja sem nú sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um hafa reynt að smygla 5 kílóum af amfetamíni og 600 grömmum af kókaíni til landsins.

Starfsmaðurinn vann á tollgæslusvæði Keflavíkurflugvallar og hafði aðgang að hraðsendingum sem komu með flugi erlendis frá. Hann hafði unnið hjá UPS í tæp þrjú ár áður en málið komst upp í síðustu viku.

Allir starfsmenn þurfa að undirgangast bakgrunnsathugun áður en þeir geta hafið störf á tollgæslusvæði Keflavíkurflugvallar. Þar með talið starfsmenn hraðsendingafyrirtækja sem starfa á tollgæslusvæðinu.

Lögregla framkvæmir þessi athugun en hún miðast að því að útiloka að menn með tengsl við fíkniefnaheiminn geti unnið á svæðinu.

Sams konar athugun var gerð á bakgrunni starfsmanns UPS sem nú situr í gæsluvarðhaldi en samkvæmt heimildum Vísis kom þar ekkert fram sem gaf til kynna að maðurinn væri viðriðinn fíkniefnaviðskipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×