Erlent

Kínversk stjórnvöld múlbinda fréttamenn

Frelsi fjölmiðla hefur verið nær óþekkt fyrirbæri í Kína frá því að kommúnistar tóku þar völdin um miðja síðustu öld. Stjórnvöld í Kína hafa vakandi auga með öllu sem birt er, sérstaklega í ríkisfjölmiðlunum.

Þegar fréttamenn kínverska ríkissjónvarpsins mæta í vinnu og kveikja á tölvum sínum er það fyrsta sem birtist á skjánum skilaboð um hvað megi segja í fréttunum þann daginn, og oftast fylga með nákvæmar lýsingar á því hvernig eigi að segja frá fréttunum. Í nýlegri umfjöllun BBC um málið er greint frá þremur dæmum um hvernig fréttamenn eru múlbundnir í Kína.

Heilbrigðismál eru vinsælt umræðuefni meðal almennings í Kína og er það talin ástæðan fyrir því að fréttamönnum var meinað að segja frá læknamistökum á sjúkrahúsi í Bejing sem kostuðu miðaldra konu lífið.

Annað dæmið er að þeir sem stjórna fréttaflutningum í Kína voru í töluverðum vanda þegar Bhutto var myrt. Frétt var of stór til að hægt væri að þegja hana í hel og í staðinn fengu fréttamennirnir nákvæma forskrift um hvernig ætti að segja frá málinu. Ástæða þessa er talin að samskiptin milli Kína og Pakistan eru mjög náin í augnablikinu og kínversk stjórnvöld vildu ekki styggja stjórn Pakistan.

Og í þriðja dæminu var fréttamönnum alfarið meinað að segja frá því að stjórnvöld hefðu bannað sýningar á nokkrum Hollywood myndum. Ástæðan var að öllum líkindum sú að á þeim tíma áttu Kínverjar í erjum við Bandaríkjamenn um viðskiptahætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×