Erlent

Gere og Tutu meðal mótmælenda í San Francisco

Hollywood leikarinn Richard Gere og Suður-afríski biskupinn Desmond Tutu voru meðal þeirra sem mótmæltu við komu Ólympíulogans til San Francisco í gærkvöldi.

Skipuleggjendur ferðar Ólympíueldsins vítt og breitt um heiminn eru líklega farnir að sjá eftir öllu saman. Þúsundir manna mótmæltu mannréttindabrotum í Kína og yfirráðum Kínverja á Tíbet í San Francisco í gær, líkt og gert hefur verið í bæði Lundúnum og París.

Fólkið hrópaði slagorð til stuðnings sjálfstæðu Tíbet og veifaði tíbeska fánanum. Mikil öryggisgæsla verður við hina tignarlegu Golden Gate brú í San Fransisco þar sem á að hlaupa með kyndilinn síðar í dag.

Þá safnaðist mikill mannfjöldi saman í gærkvöldi á útifundi í miðbænum. Meðal þeirra sem þar töluðu var leikarinn Richard Gere, sem hefur verið búddisti og stuðningsmaður Dalai Lama, leiðtoga Tíbeta, í þrjátíu ár. Desmond Tutu, erkibiskup í Suður-Afríku, talaði einnig og hvatti ráðamenn til að sniðganga leikana.

Það er hins vegar að frétta frá Peking að í morgun kom fylkisstjórinn í Tíbet fram á fréttamannafundi og varaði Tíbeta við að mótmæla þegar kyndillinn fer um Himalayasvæði Tíbets. Ef einhver reynir að valda vandræðum, sagði hann, þá munum við beita hörku. Og bætti við: „Við verðum miskunnarlausir." Hann sagði einnig að 953 hefðu verið handteknir í tengslum við uppþotin í Tíbet undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×