Erlent

Ítalskur friðarsinni myrtur í Tyrklandi

Listakonan Giuseppina Pasqualino di Marineo.
Listakonan Giuseppina Pasqualino di Marineo. MYND/APTN

Ítölsk listakona sem fyrirhugaði að ferðast á puttanum til Miðausturlanda í brúðarkjól til að efla heimsfrið fannst myrt í Tyrklandi í gær. Listakonan gekk undir nafninu Pippa Bacca en hét fullu nafni Giuseppina Pasqualino di Marineo. Lík hennar fannst í runnum nálægt borginni Gebze skammt frá Istanbul.

Di Marineo hafði sagt að hún vildi sýna að hún gæti treyst góðmennsku heimamanna.

Tyrknesk yfirvöld segjast hafa handtekið mann í tengslum við morðið. Fréttir segja að hann hafi leitt lögreglu að líkinu.  Starfsmaður ítalska sendiráðsins sagði AP fréttastofunni að lögregla hefði fundið manninn þegar hann setti nýtt SIM kort í farsíma listakonunnar. Tyrkneskir fjölmiðlar nefna manninn MK sem munu vera upphafsstafir hans. Hann mun hafa hlotið dóm áður fyrir þjófnað.

Ferðalag Pippa Bacca og nokkurra annarra listamanna var fyrirhugað frá Mílanó til Líbanon og gekk undir nafninu „Brúðir á ferðalagi." Hún hafði skilið við hópinn í Istanbul en ætlaði að hitta hann aftur í Beirút. Síðast sást til hennar 31. mars í borginni Gebze.

Systir Pippa Bacca, sem hafði komið til Tyrklands til að leita hennar, bar kennsl á líkið. Ekki hefur verið greint frá því hvernig hún var myrt en hún verður krufin í Istanbul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×