Erlent

Frakkar miðla málum á Gaza

Frakkar reyna nú að miðla málum milli Ísraela og Hamas-samtakanna á Gaza. Sarkozy Frakklandsforseti íhugar að halda til Ísraels til fundar við leiðtoga þar. Ísraelar segja hugmyndir frakka um tveggja sólahringa vopnahlé til að hjálpa særðum óraunhæfar.

Ríkisstjórn Ísraels kom saman til fundar snemma í morgun til að ræða hugmyndir Frakka og annarra um vopnahlé. Þeim var hafnað.

Nicholas Sarkozy, Frakklandsforseti, mun íhuga að halda til Ísraels til að ræða hugmyndir Frakka við ísraelska ráðamenn augliti til auglitis.

Talið er að Ísraelar ljái enn síður máls á vopnahléi eftir að kassam flugskeyti herskárra Palestínumanna sem skotið var frá Gaza náður lengra inn í Ísrael en áður.

Á meðan þjást íbúar á Gaza. Sjúkrahús eru yfirfull þar sem enn er þó hægt að veita læknisþjónustu. Þrjú hundruð sjötíu og fjórir Palestínumenn hafa fallið frá upphafi árása á laugardaginn og hátt í þúsund liggja særðir.

Arababandalagið fundar um ástandið á Gaza í dag. Amr Moussa, framkvæmdastjóri, krefst þess að leiðtogar helstu hreyfinga Palestínumanna, sem ættu í innbirgðis deilum, settust þegar niður til að ræða samræmd viðbrögð við árásum Ísraela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×