Erlent

Vilja að Obama rjúfi þögnina um geimverur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ein fjölmargra mynda sem teknar hafa verið af óþekktum fljúgandi hlutum um allan heim. Eru þetta allt falsanir? Lenti eitthvað annað en veðurloftbelgur í Roswell 1947?
Ein fjölmargra mynda sem teknar hafa verið af óþekktum fljúgandi hlutum um allan heim. Eru þetta allt falsanir? Lenti eitthvað annað en veðurloftbelgur í Roswell 1947? MYND/Wordpress.com

Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, er undir miklum þrýstingi að birta leyniskjöl um fljúgandi furðuhluti.

Pósti frá áhugamönnum um svokallaða fljúgandi furðuhluti eða loftför frá samfélögum utan jarðarinnar rignir nú yfir Barack Obama og er hann eggjaður mjög til að svipta nú hulunni af meintum samskiptum Bandaríkjahers við fljúgandi för og verur annarra heima.

Hópur sem kallar sig „Extraterrestrial Phenomenon Political Action Committee", eða nefnd um aðgerðir í málefnum geimvera, hvetur Obama til að binda endi á meira en sex áratuga leynimakk og stofna þingnefnd sem leggur mat á framburð allra þeirra sem segjast hafa séð fljúgandi furðuhluti eða haft einhvers konar samskipti við verur frá öðrum hnöttum.

Miklar vonir eru bundnar við að John Podesta, fyrrum starfsmannastjóri Bills Clinton og formaður undirbúningsnefndar Obama, muni aðhafast í málinu en hann beitti sér á sínum tíma fyrir því að 800 milljónir blaðsíðna af gömlum leyniskjölum yrðu gerðar opinberar.

Sérstaklega eru áskorendur Obama forvitnir um hvað það var sem raunverulega brotlenti í Roswell í Nýju-Mexíkó sumarið 1947 þegar herinn lokaði stóru svæði og sagði veðurathugunarloftbelg hafa hrapað þar til jarðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×