Erlent

Skipstjórinn sagður ofurölvi þegar rússneskt skip strandaði

Áhöfnin á rússneska flutningaskipinu MCL Trader, sem strandaði við Borgundarhólm um helgina, náði óvænt í gærkvöldi að losa skipið fyrir eigin vélarafli og sigla því skipstjóralausu til hafnar.

Kafarar eru nú að kanna skemmdir á botni þess og lögreglan er jafnframt að ganga úr skugga um það hvort áfengismagn í blóði skipstjórans hafi virkilega verið 2,38 prómill, eins og fyrstu niðurstöður úr blóðsýnum benda til. Reynist það rétt hefur hann verið ofurölvi, eða nánast meðvitundarlaus, og á yfir höfði sér 30 daga óskilorðsbundna fangelsisvist og sektir.

Reynist skipið, sem strandaði á rifi, lítið eða ekkert skemmt, fær það að sigla á ný, það er að segja þegar nýr skipstjóri hefur fengist og það edrú, öðrum kosti ætla hafnaryfirvöld ekki að sleppa skipinu út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×