Innlent

Haraldur ríkislögreglustjóri sendir Jóhanni pillur

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóru sendir Jóhanni R. Benediktssyni fráfarandi lögrelustjóra á Suðurnesjum pillur í kveðju til hans sem birt var á vefsíðu lögreglunnar í dag.

"Óvenjulegt er að lögregluforingi kveðji samstarfsmenn sína til margra ára með stóryrðum og hrakspám eða líki lögreglustarfi við sandkassaleik," skrifar Haraldur en Jóhann líkti samskiptum sínum við ríkislögreglustjóra við sandkassaleik í viðtali við Morgunblaðið nú um helgina.

Þá segir hann að framkoma Jóhanns í fjölmiðlum sé lögreglustjórum ekki samboðin.

Kveðja Haraldar í heild sinni er birt hér fyrir neðan:

Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri lætur af embætti 1. október nk. Óvenjulegt er að lögregluforingi kveðji samstarfsmenn sína til margra ára með stóryrðum og hrakspám eða líki lögreglustarfi við sandkassaleik.

Innan raða lögreglunnar hefur síðastliðin ár verið rætt um stefnur og strauma í löggæslumálum að hvatningu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Skipulagsbreytingar hafa reynt á hæfni og getu yfirmanna og hafa þeir sýnt festu og áræðni til að ná settum markmiðum. Um þetta hefur verið samstaða meðal allra lögreglustjóra. Einn úr hópnum kýs nú að fara aðra leið. Það er hans val.

Ég óska Jóhanni R. Benediktssyni velfarnaðar á nýjum vettvangi, þótt kveðja hans til okkar, sem viljum metnað lögreglu sem mestan, sé ekki lögreglustjóra samboðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×