Erlent

Líkir stjórn Browns við þriðja ríki Hitlers

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Dr. Rowan Williams erkibiskup.
Dr. Rowan Williams erkibiskup. MYND/Telegraph

Erkibiskupinn af Kantaraborg líkir efnahagsstjórn Gordons Brown við þriðja ríki Adolfs Hitler.

Doktor Rowan Williams erkibiskup er ómyrkur í máli þegar hann skrifar í breska blaðið Telegraph að margt sé líkt með stjórnarháttum forsætisráðherrans Gordons Brown og því hvernig Hitler hélt um stjórnartauma síns veldis á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Williams varar við því að stefna Browns taki ekkert tillit til þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og nefnir þar eldri borgara og þá sem misst hafa atvinnuna. Biskupinn hvetur til þess að varlega verði stigið til jarðar við að skuldsetja breskan almenning en eftir hrun bankakerfisins krafðist hann aukins eftirlits með fjármálafyrirtækjum og benti á að Karl Marx hefði haft rétt fyrir sér þegar hann greindi hættur auðvaldsstefnunnar.

Í grein sinni minnir biskup enn fremur á að í Þýskalandi nasismans hafi skilyrðislaus hlýðni við kerfi snúist upp í martröð. Hann klykkir út með því að minnast guðfræðingsins Karls Barth sem Hitler gerði útlægan en Barth sagði höfuðkost kristninnar þann að fylgjendur hennar gætu lifað utan pólitískra lögmála og kennisetninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×