Erlent

Fjölskylda Olivers hefur ekkert heyrt frá mannræningjunum

Fjölskylda hins fimm ára gamla Oliver sem rænt var úr bíl móður sinnar í Virum í Danmörku hefur enn ekkert heyrt frá ræningjum drengsins.

Fjölskyldan beið við símann í gærkvöldi og langt fram á nótt en án árangurs.

Afi drengsins segir í samtali við Ekstra Bladet í dag að hér hljóti að vera fjárkúgun á ferðinni og að mannræningjarnir séu á höttunum eftir háu lausnargjaldi fyrir drenginn.

Fjölskylda Oliver er af kínverskum uppruna og mjög efnuð. Fjölskyldan á fjölda af kínverskum veitingahúsum víða á Kaupmannahafnarsvæðinu. Faðirinn er meðal annars meðeigandi að hinum vinsæla veitingastað Kínverska turninum í Tívolínu í Kaupmannahöfn.

Lögreglan segir að ránið hafi verið þaulskipulagt en tveir grímuklæddir menn hrifsuðu Oliver úr bíl móður sinnar er hún var að sækja drenginn á leikskóla. Þeir óku svo á brott á ofsahraða í svörtum skutbíl.

Lögreglan hefur nú fundið bílinn en hann var á númeraplötum sem stolið hafði verið af öðrum bíl í Albertslund aðfararnótt miðvikudagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×