Innlent

Skipar nefndir til að styrkja byggðir á Norður- og Austurlandi

MYND/Vilhelm

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa tvær nefndir til þess að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi en þar eru byggðarlög sem eiga undir högg að sækja.

Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í minnisblaði sem lagt var fram á fundinum kemur fram að annarri nefndinni sé ætlað að fjalla um Norðurland vestra og á hún að skila forsætisráðherra tillögum eigi síðar en í lok mars. Hinni nefndinni er ætlað að fjalla um fámenn byggðarlög á Norðurlandi eystra og Austurlandi sem eiga undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti og skila forsætisráðherra tillögum eigi síðar en 1. maí.

Nefndunum er meðal annars ætlað að gera tillögur um möguleika á að styrkja menntun og rannsóknir, uppbyggingu iðnaðar og þjónustu og flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu til umræddra svæða. Í hvorri nefnd eiga sæti fimm fulltrúar.

Í minnisblaðinu er bent á að sams konar nefnd hafi verið skipuð vegna Vestfjarða í fyrra og ákvað ríkisstjórnin í fyrrasumar að verja um 280 milljónum króna á árunum 2007 og 2008 til verkefna sem var að finna í tillögum þeirrar nefndar. Í tillögum ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna skerðingar aflaheimilda er m.a. tekið undir fleiri tillögur nefndarinnar.

Þá er bent á skýrslu Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Hagvöxt landshluta 1998-2005, sem kom út í ágúst 2007. Þar kom fram að hagvöxtur væri mismunandi eftir landshlutum og til að mynda hefði framleiðsla á Norðurlandi vestra minnkað um 1,5 prósent á ári frá 1998 til 2005. Þá væru nokkur fámenn byggðarlög á Norðurlandi eystra og Austurlandi sem ættu undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti.

„Atvinnu- og búsetuskilyrði í þessum byggðarlögum eru afar veik og hagvöxtur neikvæður. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi hafa farið þess á leit að stjórnvöld aðstoði heimamenn við að leita leiða til að styrkja atvinnulíf á svæðinu," segir í minnisblaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×