Innlent

Mega ekki auglýsa lán með 0 prósent vöxtum

Netyendastofa hefur bannað BT að auglýsa lán til kaupa á vörum með 0 prósent vöxtum án þess að birta heildarverð vörunnar sem lánið er veitt vegna.

Neytendastofa gerði athugasemdir við auglýsinguna í lok síðasta mánaðar en samkvæmt henni var auglýst „Vaxtalaus veisla". Segir í bréfi stofnunarinnar að í bæklingi BT sé til dæmis boðið til sölu sjónvarp á tæpar hundrað þúsund krónur staðgreitt eða með láni með engum vöxtum með afborgunum að fjárhæð kr. 9.331 á mánuði í tólf mánuði.

Segir Neytendastofa að ef afborgunarverð lánsins sé framreiknað sé verð sjónvarpsins nærri 112 þúsund krónur. „Þrátt fyrir það er tekið fram að vextir séu 0% en á annarri blaðsíðu í bæklingnum segir að inn í útreikning mánaðarlegra greiðslna sé 5,8% skuldaálag, 3% lántökugjald og 250 kr. mánaðarlegur færslukostnaður," segir Neytendastofa enn fremur.

Telur Neytendastofa að framsetningin hafi verið villandi enda megi neytendur ætla að núll prósenta vextir þýði að enginn kostnaður bætist við staðgreiðsluverð. Þar sem slíkt er brot á reglum um verðupplýsingar í auglýsingum ákvað Neytendastofa að banna BT að auglýsa á þennan hátt þrátt fyrir mótmæli Árdegis, sem rekur BT.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×