Innlent

Þorgerður myndi fara aftur til Peking

MYND/Vilhelm

Kostnaður við ferð menntamálaráðherra, eiginmanns hennar og ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins til Peking þegar íslenska landsliðið í handknattleik lék til úrslita á Ólympíuleikunum nam 1,8 milljónum króna. Þetta sagði ráðherra á þingi í dag og sagðist standa við þá ákvörðun að fara í ferðina.

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurði ráðherra út í ferðina og minnti á að þetta hefði verið í annað sinn sem ráðherra hefði farið til Kína á Ólympíuleikana. Sagði Jón að ráðherra hefði farið í seinni ferðina ásamt maka sínum og ráðuneytisstjóra og maka hans.

Benti hann á að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefði verið starfandi forsætisráðherra á þessum tíma og spurði hver hefði tekið ákvörðun um ferðina. Enn fremur hvort ríkisstjórnin hefði fjallað og samþykkt um ferðina og hvort greiddir hefðu verið dagpeningar til maka. Enn fremur spurði Jón hvort valin hefði verið ódýr ferðatilhögun og gisting og hver heildarkostnaður við ferðain.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra benti á að íslenska landsliðið í handknattleik hefði verið að leika til úrslita á Ólympíuleikunum og að hún myndi taka þá ákvörðun aftur að fara til Peking enda væri um einstakan viðburð að ræða. Þrír hefðu farið í ferðina en ekki fjórir en aldrei hefðu verið greiddir dagpeningar til maka ráðherra.

Upplýsti menntamálaráðherra að ferðin hefði kostað uym 1,8 milljónir króna. Sagðist hún hafa metið það svo að það hefði verið rétt að ábyrgðarmaður íþróttamála færi á þennan mikilvægasta viðburð í íslenskri íþróttasögu. Hún stæði við þessa ákvörðun líkt og hún stæði við það að eyða fjármunum ríkisins í að taka á móti landsliðinu með hátíð.

Jón sagði út frá svörum ráðherra að dæma að málið hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn og að ekki verið leitað ódýrra leiða við förina til Kína. Þorgerður sakaði Jón hins vegar um að fara með hálfkveðnar vísur og rangt mál. Heildarkostnaður við ferðirnar tvær lægi fyrir og það hefði komið skýrt fram að bæði íslensku landsliðsmennirnir og forsvarsmenn ÍSÍ hefðu talið mikilvægt að íþróttamálaráðherra og forseti Íslands yrðu viðstaddir úrslitaleikinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×