Innlent

Óska eftir minnisblaði mannauðsstjóra vegna ráðningar Jakobs

Svandís Svavarsdóttir oddviti Vg í borgarstjórn.
Svandís Svavarsdóttir oddviti Vg í borgarstjórn.

Í svari borgarstjóra til borgarráðsfulltrúa minnihlutans kemur fram að á fimmta tug starfsmanna borgarinnar séu á hærri launum en nýráðinn framkvæmdarstjóri miðborgarmála. Í svarinu er ekki gerður greinarmunur á starfsmönnum sem þiggja laun samkvæmt gildandi samningum borgarinnar við stéttarfélög og embættismönnum sem þiggja laun samkvæmt ákvörðun kjaranefndar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá minnihlutanum í borgarstjórn. Þar segir að kjör fyrrverandi miðborgarstjóra hafi verið ákvörðuð af kjaranefnd, en núverandi framkvæmdarstjóri samkvæmt samningum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

„Borgarstjóri hefur ítrekað sagt kjör framkvæmdastjóra miðborgarmála vera þau sömu og uppreiknuð laun fyrrum framkvæmdastjóra, enda sé gert ráð fyrir 29% hækkun á launavísitölu.

Röðun núverandi framkvæmdastjóra miðborgarmála í launaflokk hefur ekki verið rökstudd að öðru leyti en að fastlaunasamningur er sagður vera samkvæmt mati í samræmi við verksvið og umfang starfsins og sambærileg störf."

Af þessu tilefni óskar minnihlutinn eftir minnisblaði frá mannauðstjóra Reykjavíkurborgar með eftirfarandi upplýsingum:

1. Rökstuðningi á röðun framkvæmdastjóra miðborgarmála í launaflokk.

2. Rökstuðningi á því að framkvæmdastjóri miðborgar var ráðinn sem starfsmaður en ekki embættismaður, ólíkt fyrrum framkvæmdastjóra miðborgar sem ráðinn var sem embættismaður.

3. Greinargerð um muninn á starfsfólki sem þiggur laun skv. kjarasamningum annars vegar og embættismönnum sem þiggja laun skv. ákvörðun kjaranefndar.

4. Fjölda embættismanna sem eru á hærri launum en núverandi framkvæmdastjóri miðborgarmála.

5. Fjölda starfsmanna sem eru á hærri launum en núverandi framkvæmdastjóri miðborgarmála.

6. Útskýringum á þeim 29% sem borgarstjóri gerir ráð fyrir að launavísitala borgarinnar hafi hækkað um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×