Erlent

Hætta heimkvaðningu hermanna frá Írak í lok júlí

Bandaríkjamenn ætla að hætta heimkvaðningu hermanna frá Írak í lok júlí. Demókratar segja Bush Bandaríkjaforseta ætla að eftirláta arftaka sínum að hreinsa til í Írak.

Byrjað var að fjölga í herliði Bandaríkjamanna í Írak snemma í fyrra. Mat manna var að það hefði haft áhrif. Ofbeldisverkum og árásum hefði fækkað til muna.

Síðan er liðinn nokkur tími og svo virst sem herskáum hafi vaxið fiskur um hrygg. Árásum hefur fjölgað og mannfall í síðasta mánuði meira en mánuðina á undan. Ákveðið var að kalla viðbótarherliðið aftur í áföngum og átti því að ljúka í lok júlí. Þá yrðu bandarískir hermenn í Írak aftur 140 þúsund líkt og áður en byrjað var að bæta við.

Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að heimkvaðningu yrði hætt eftir það. David Peatreus, herforingi í Írak, sagði við yfirheyrslur hjá hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í vikunni að ástandið í Írak hefði batnað en væri þó enn óásættanlegt. Hann lagðist gegn frekari heimkvaðningu og bað um fjörutíu og fimm daga frest frá lokum júlí til að meta stöðuna og ráðleggja síðan um næstu skref. Bush varð við því og sagði Peatreus fá þann tíma sem hann þyrfti.

Demókratar á Bandaríkjaþingi segja Bush vera að tefja málin með þessari ákvörðun. Hann ætli að varpa málinu yfir á arftaka sinn sem tekur við í janúar á næsta ári. Það sé ábyrgðarleysi, Bandaríkjamenn vilji svör frá forseta sínum núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×