Innlent

Fimm sagt upp hjá HB Granda á Akranesi

MYND/Eiríkur Kristófersson

Öllum starfsmönnum síldar- og fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi, fimm talsins, var sagt upp í morgun. Þetta kemur fram á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.

Þar fer formaður félagsins hörðum orðum um fyrirtækið og bendir á að sumir starfsmannanna hafi átt að baki áratugastarf hjá fyrirtækinu. „Það er óhætt að segja að sá fantaskapur sem forsvarsmenn HB Granda sýna okkur Skagamönnum ætli engan enda að taka," segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélagsins, á heimasíðunni.

Þar segir einnig að hann hafi fundað með starfsmönnunum í morgun. Þeir hafi verið bitrir og reiðir vegna þessarar ákvörðunar og ljóst sé að krafist verði skýringa á þessari ákvörðun. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður hefur aflað þá stendur ekki til að leggja verksmiðjuna niður hér á Akranesi. Á þeirri forsendu er þessi ákvörðun gjörsamlega óskiljanleg," segir enn fremur á heimasíðunni.

Hægt er að nálgast pistilinn á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×