Erlent

Páfagarður fyrirgefur John Lennon

John Lennon.
John Lennon.

Páfagarður hefur fyrirgefið Bítlinum John Lennon rúmlega fjörutíu ára gömul ummæli um að hljómsveit hans væri frægari en Jesús Kristur.

Í viðtali við breskt dagblað 1966, þegar Bítlarnir voru á hátindi fræðgar sinnar, sagði Lennon í viðtali við breska blaðið Evening Standard að Bítlarnir væru vinsælli en frelsarinn og að hann væri ekki viss um það hvort myndi deyja út fyrr, kristin trú eða rokktónlist. Ummælin vöktu ekki mikla athygli í Bretlandi en þagar þau bárust til Bandaríkjanna varð uppi fótur og fit og plötur voru brenndar.

L´Osservatore Romano, málgagn Vatíkansins, víkur að deilunni í umfjöllun um fjörutíu ára útgáfuafmæli Hvíta albúms Bítlanna. Í greininni eru Lennon og Bítlarnir lofsungnir. Telur greinahöfundur að ummælin beri hins vegar vott um að skyndileg frægð hafi stigið ungum verkamannssyni til höfuðs.

L´Osservatore Romano hefur tekið nokkrum breytingum frá því nýr ritstjóri var ráðinn. Áður fyrr fjallaði það nær einvörðungum um daglegar athafnir Páfa og ræður hans allar birtar í heild sinni. Nú hefur verið opnað fyrir greinar um dægurmál og alþýðumenningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×