Innlent

Bjarni og Illugi vilja aðildarviðræður við ESB

Bjarni Ben formaður utanríkismálanefndar.
Bjarni Ben formaður utanríkismálanefndar.
Tveir frammámenn Sjálfstæðisflokksins á þingi, Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, lýsa því yfir í Fréttablaðinu í dag að þeir vilji að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið og að innganga í sambandið verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bjarni og Illugi segja í aðsendri grein í blaðinu að krónan muni reynast okkur fjötur um fót til lengri tíma. Þó megi ákvörðun um aðild ekki eingöngu snúast um gjaldmiðilinn. Þeir segja að stjórnvöldum hafi mistekist á undanförnum árum að tengja saman ríkisfjármál og stjórn peningamála. Vextir hafi orðið ein helsta útflutningsafurð þjóðarinnar og því hafi gengi krónunnar orðið sterkara en verðmætasköpun þjóðarinnar gat staðið undir. Einkavæðing ríkisbankanna hafi þó ekki verið mistök en þeir telja að herða hefði þurft reglur um eignarhald bankanna. Þá hafi Fjármálaeftirlitið verið of veikt og benda þeir á að enn sé það aðeins með um 60% af mannafla Fiskistofu.

Þá segja Bjarni og Illugi að atburðir síðustu mánaða hafi dregið úr trausti fólks á stjórnmálamönnum. Þeir telja því nauðsynlegt að endurskoða kosningafyrirkomulagið. Hvert sú endurskoðun ætti að leiða skýra þeir ekki frekar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.