Innlent

Um hreina brottvikningu að ræða

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður.
Dómsmálaráðherra er augljóslega að reyna losa sig við lögreglustjórann á Suðurnesjum með því að auglýsa starf hans laust til umsóknar að mati Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns. Hann segir um hreina brottvikningu að ræða.

Dómsmálaráðuneytið ætlar að auglýsa starf Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjórans á Suðurnesjum, laust til umsóknar þrátt fyrir að hann hafi ekki sagt starfi sínu lausu. Jóhanni var tilkynnt þessi ákvörðun ráðuneytisins í bréfi í byrjun mánaðarins.

Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, segir mjög óvenjulegt og nánast einsdæmi að ráðuneyti fari fram með þessum hætti.

„Hin venjulega framkvæmd er sú að maður sem hefur þennan afmarkaða skipunartíma hyggst halda áfram þá er hans skipunartími einfaldlega framlengdur og starfið ekki auglýst en með þessu er auðvitað verið að segja að hans tími er liðinn og annar eigi að koma í staðinn. og þetta er auðvitað bara brottrekstur," segir Sveinn Andri í samtali við Stöð 2.

Deilur hafa staðið milli ráðuneytisins og lögreglustjórans um skipan mála í umdæminu eftir umtalsverðan hallarekstur á síðasta ári. Tilraunir til að leysa hnútinn hafa runnið út í sandinn og segir Sveinn augljóst að ráðherra sé nú að losa sig við lögreglustjórann. „Það þarf enginn að segja okkur annað. Það bara er þannig. það er sama þótt menn reyni að klæða þetta í annan búning. Dómsmálaráðherra er bara að losa sig við óþægilegan mann. Punktur. Þannig er það bara."

Björn Bjarnason vísar því hins vegar á Bug að verið sé að bola Jóhanni úr embætti. „Með því að auglýsa embættið er ekki verið að bola neinum úr embætti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það eigi að auglýsa embætti miklu oftar heldur en gert er," segir Björn og bætir við: „Eftir þennan fimm ára tíma en í þessu tilliti eru alveg klárar efnislegar forsendur fyrir að taka þessa ákvörðun. Þær geta ekki verið skýrari."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×