Innlent

Erlendur banki hefur íhugað alvarlega að bjóða fasteignalán hér á landi

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.
Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, segir að erlendur aðili hafi skoðað það alvarlega að koma inn á íslenskan markað með fasteignalán. Hins vegar hafi þróun síðustu mánaða í íslensku efnahagslífi orðið til þess að menn hafi haldið að sér höndum.

Hún segist þó ekki útiloka að erlendi aðilinn láti slag standa fari ekki að rætast úr hjá íslensku bönkunum sem hafa að miklu leyti skrúfað fyrir fasteignalán.

„Það var búin að vera í gangi alvarleg skoðun hjá erlendum banka um að komast inn á markaðinn," segir Ingibjörg en hún vill ekki gefa upp hvaða banka sé um að ræða. „Þeir hafa hins vegar haldið að sér höndum undanfarið vegna þess ástands sem verið hefur í efnahagsmálum."

Ingibjörg segist þó enn vera bjartsýn um að úr rætist. „Ef íslensku bankarnir fara ekki að taka sig á þá hlýtur að skapast kjörið tækifæri fyrir erlendan aðila að koma inn á þennan markað," segir Ingibjörg og bætir því við að þetta sé án efa það sem koma skal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×