Innlent

Remax fasteignasölur renna í sömu sæng

Breki Logason skrifar

Fjórar fasteignasölur sem starfað hafa undir merkjum Remax hafa sameinast. Um hagræðingu er að ræða og engin fækkun verður á sölufólki. Þórarinn Sævarsson einn af eigendum Remax segir að eingöngu sé verið að minnka kostnað. Hann telur að fasteignamarkaðurinn verði orðinn góður í ágúst.

Remax Center og Remax Borg sameinast undir nafni þeirrar fyrrnefndu og verða staðsettir í húsnæði hennar. Gamla húsnæði Borgar er nú til leigu en þeir sem störfuðu á þeirri síðarnefndu eru þegar fluttir á nýja staðinn.

Einnig sameinast Remax Mjódd og Remax Torg undir nafni þeirrar síðarnefndu.

Þórarinn segir að sölurnar hafi meira og minna verið í sömu eigu og fyrst og fremst sé verið að hagræða.

„Það er einungis verið að fækka skrifstofufólki og lækka kostnað, sölumennirnir verða áfram jafn margir. Við erum bara að reyna að reka fasteignasölu án þess að tapa á því," segir Þórarinn en ákvörðun um sameiningu var tekin nú um áramótin.

„Breyttar markaðsaðstæður flýttu bara fyrir þessari ákvörðun."

Fasteignamarkaðurinn hefur verið erfiður undanfarið og reiknar Þórarinn mað að hann verði orðinn fínn í ágúst.

„Þetta kemur niður á öllum á markaðnum og þeir sem verða á lífi í ágúst munu njóta þess," segir Þórarinn sem telur pottþétt að Remax muni lifa það af.

„Það er svo gott með svona concept eins og Remax að það er enginn hugmyndafræðilegur ágreiningur. Þegar það þarf að hagræða þá er sama kerfi hjá báðum og menn renna bara í sömu sæng, það er mjög gott."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×