Erlent

Bill Clinton opinberar lista yfir stuðningsmenn

Bill Clinton hefur fallist á að gera opinberan lista yfir meira en 200 þúsund stuðningsmenn sína til þess að Hillary kona hans geti orðið utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Búist er við að þetta ryðji úr vegi hindrunum fyrir því að Hillary Clinton verði utanríkisráðherra. Væntanlega verður tilkynnt um það á morgun að hún taki að sér embættið.

Síðan hann lét af embætti sem forseti hefur Bill Clinton notið stuðnings bæði einstaklinga og fyrirtækja við uppbyggingu stofnunar sem kennd verður við hann.

Í herbúðum Baracks Obama höfðu menn áhyggjur af að þetta gæti leitt til hagsmunaárekstra og því var þetta samkomulag gert við forsetann fyrrverandi.

Clinton féllst einnig á að leggja ræður sínar og viðskiptaáætlanir fyrir siðanefnd þingsins svo lengi sem kona hans gegnir embætti utanríkisráðherra.

Clinton hefur átt í talsverðum viðskiptum undangengin ár og ferðast víða um heiminn í því skyni.

Hann situr í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana og hefur gengið vel að afla sér fjár. Hann fær til dæmis fúlgur fjár fyrir að flytja ræður um heimsmálin við ýmis tækifæri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×