Innlent

Íslensk stúlka í bekk með Ágústi - Móðirin afar ósátt

Andri Ólafsson skrifar

Íslensk stúlka sem er í sama bekk og Ágúst Magnússon í biblíuskóla Livets ord í Uppsölum, fékk ekki að vita fyrr en í gær að Ágúst væri dæmdur barnaníðingur.

Vísir ræddi við móður stúlkunnar í dag en hún er afar ósátt.

Ágúst er á reynslulausn eftir að hafa brotið kynferðislega gegn sex drengjum. Hann er að mati sálfræðings haldinn barnagirnd á alvarlegu stigi og líklegur til að brjóta aftur af sér.

Tanja Rós Ívarsdóttir er 18 ára íslensk stúlka sem hóf nám í Livets Ord biblíuskólanum á sama tíma og Ágúst.

Hvorki hún né samnemendur hennar vissu að Ágúst væri dæmdur barnaníðingur. Þeim upplýsingum hélt Staffan Moberg, skólastjóri biblíuskólans, frá nemendum að beiðni Ágústs.

Foreldrar Tönju á Íslandi hringdu í dóttur sína í gær og sögðu henni af málinu í kjölfar frétta Vísis af Ágústi.

Foreldrarnir eru afar ósáttir við Ágúst og segja að hann hefði átt að koma heiðarlega fram og segja frá bakgrunni sínum.

"Ég er ekki sátt við að hann hafi ætlað að halda bakgrunni sínum leyndum fyrir samnemendum sínum," segir Hrefna Rós Wiium, móðir Tönju.

"Ég held að engin móðir væri sátt við það að vita af barnaníðingi í sama 45 manna bekk og 18 ára dóttir sín," bætir hún við.

Hrefna tekur það fram að hún vilji ekki sverta Livets ord biblíuskólann enda hafi fjölskylda hennar haft góða reynslu af honum.

Gremja hennar beinist að Ágústi fyrir að hafa ætlað að halda fortíð sinni leyndri fyrir dóttur hennar og samnemendum.








Tengdar fréttir

Barnaníðingur í biblíuskóla

Ágúst Magnússon, sem nýlega losnaði úr fangelsi eftir fimm ára fangelsisdóm sem hann fékk fyrir kynferðisbrot gegn sex drengjum, hefur hafið nám við Livets Ord biblíuskólann í Uppsölum í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×