Innlent

Sólskinstundir um þriðungi fleiri í apríl en í meðalári

MYND/Róbert

Ríflega 200 sólskinsstundir mældust í Reykjavík í nýliðnum aprílmánuði og er það rúmlega 67 klukkustundum umfram meðallag. Þetta er mun meira sólskin en mældist í apríl í fyrra en svipað og árið 2006. Á Akureyri reyndust sólskinsstundirnar 151 og er það 21 stund yfir meðallagi.

Á heimasíðu Veðurstofu Íslands segir enn fremur að úrkoma í Reykjavík í apríl hafi mælst 21,5 millímetrar og það er einungis þriðjungur af meðalúrkomu. Þetta er minnsta úrkoma sem mælst hefur þar í apríl í tíu ár. Á Akureyri mældist úrkoman 13,9 millímetrar og er það um 48 prósent af meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældust einungis 21,6 millímetrar sem er um fjórðungur af meðaltalinu.

Hins vegar reyndist snjór á láglendi ívið meiri en undanfarin ár fram eftir aprílmánuði. Þann 9. apríl var 11 sentímetra snjódýpt í Reykjavík og þann 14. var 15 sentímetra snjódýpt á Höfn í Hornafirði.

Hæsti hiti í mánuðinum á mannaðri stöð mældist á Bláfeldi þann 24. apríl, 14 stig, en á sjálfvirkri stöð á Neskaupstað í Drangagili þann 18. apríl mældist hitinn 20 stig. Kaldast í mánuðinum á mannaðri stöð varð á Grímsstöðum á Fjöllum aðfaranótt 14. apríl, -15,4 stig, en á sjálfvirkri stöð á Setri þann 15., -21,3 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×