Erlent

Fórnarlamba jarðskjálfta minnst með þriggja mínútna þögn

Kínverjar minntust þeirra sem létust í jarðskjálftanum mikla í Sesjúan í morgun með þriggja mínútna þögn.

Um gjörvallt Kína stöðvaðist umferð, kaupmenn hættu að selja og verkamenn lögðu niður störf í þrjár mínútur. Þrettán hundruð milljónir manna stóðu grafkyrrar í minningu um þá sem létust í jarðskjálftanum í Sesjúan fyrir réttri viku.

Skjálftinn varð klukkan 28 mínútur yfir sex að íslenskum tíma eða 28 mínútur yfir tvö eftir hádegi að kínverskum tíma. Nú er vitað um 34 þúsund manns sem létu lífið en óttast er að tala látinna fari yfir 50 þúsund.

Meðal þeirra sem minntust hinna látnu voru Hu Jintao, forseti Kína, og Wen Jiabao forsætisráðherra. Þeir voru í svörtum fötum og lutu höfði. Jafnvel hlaupinu með ólympíueldinn - sem nú er verið að fara með um gjörvallt Kína - var frestað í þrjár mínútur.

Talið er að enn séu um níu þúsund manns undir rústum húsa sem hrundu í skjálftanum en óvíst er hvort nokkur þeirra er á lífi. Fimm milljónir manna misstu heimili sín og 245 þúsund manns slösuðust í skjálftanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×