Innlent

Sérsveitarmenn frábiðja sér órökstuddar ávirðingar

„Frá síðustu áramótum hefur ítrekað borið á ávirðingum í garð sérsveitar, jafnvel frá yfirstjórnendum í lögregluliðum, og virðist alið á öfund í garð sérsveitarinnar," segir í yfirlýsingu sem Vísi hefur borist frá sérsveit ríkislögreglustjóra.

Allir starfandi sérsveitarmenn skrifuðu undir yfirlýsinguna en í henni vara þeir við að hróflað verði við starfsemi hennar eins og Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu stakk upp á í Morgunblaðinu um helgina.

Stefán viðraði á meðal annars þá hugmynd að sérsveitin yrðir færð undir stjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Sérsveitarmönnum hugnast þessar hugmyndir illa og segja slæma reynslu af því að reka sérsveitina hjá lögreglunni í Reykjavík.

„Áratuga slæm reynsla af því að reka sérsveitina hjá lögreglunni í Reykjavík varð til þess að sátt náðist innan lögreglunnar um að starfsemi hennar félli alfarið undir ríkislögreglustjóra," segir í yfirlýsingu sérsveitarmannana. Hún hefur verið send Birni Bjarnsyni dómsmálaráðherra sem innlegg þeirra í umræðuna.

„Við...getum vel sætt okkur við röksstuddar aðfinnslur um okkar störf en frábiðjum okkur órökstuddar ávirðingar um að við sinnum ekki okkar starfi af fyllstu heillindum og dugnaði," segir í yfirlýsingu sérsveitarmanna.

Sérsveitarmenn segja að núverandi fyrirkomulag, þar sem sérsveitin heyrir undir ríkislögreglustjóra og sé hrein viðbót við hina almennu löggæslu, sé hið besta sem völ er á. „Vörum við eindregið við því að þeirri skipan verði breytt til fyrra horfs sem áratuga slæm reynsla er fyrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×